Samningur ASÍ við SA 21. desember

ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir nýjan kjarasamning fyrir hönd aðildarfélaga sinna. Samningurinn verður núna borinn undir félögin og verði hann samþykktur, gildir hann frá og með 1. janúar næstkomandi.

Að sögn ASÍ er þetta aðfarasamningur, til eins árs. Á þeim tíma verður unnið að gerð langtímasamnings, sem stefnir að stöðugleika í íslensku efnahagslífi og kaupmáttaraukningu til framtíðar.

Laun og allir kjaratengdir liðir hækka um 2,8%. Lágmarkshækkun verður þó 8.000 krónur á mánuði og taxtar undir 230.000 hækka að auki um 1.750 krónur. Þetta þýðir að öll laun fyrir neðan 230.000 hækka um 9.750 á mánuði, öll laun milli 230.000 og 285.000 hækka um 8.000 krónur á mánuði og öll laun þar fyrir ofan hækka um 2,8%. Þá hækka framlög í starfsmenntunarsjóði um 0,1%.

Í tengslum við samningana náðist samkomulag við ríkisstjórnina um breytingar á tekjuskatti, þannig að neðsta tekjuskattsþrepið nær upp að 290.000  króna launum á mánuði í stað 256.000 króna. Tekjuskattur í næsta þrepi verður 25,3% í stað 25,8% áður. Stjórnin hafði áður ætlað að lækka þann skatt í 25% en það breyttist þegar tekjumörk voru færð. Ríkið mun ekki hækka gjaldskrár um meira en 2,5% á árinu og stærstu sveitarfélög gera hið sama. Athugið að ofan á tekjuskatt leggst síðan alltaf útsvarsprósenta í viðkomandi sveitarfélagi.

Aðstaða margra BHM-félaga, þar með töldu SBU, er önnur en ASÍ-félaga. Þar ber fyrst að nefna að hækkanir hjá ASÍ-félögum hjá ríkinu hafa verið 8,6% meiri en BHM-félaga hjá sama vinnuveitanda á árunum 2008 til 2013, svo dæmi sé tekið. Einnig er um mun að ræða hjá sveitarfélögunum og á almennum markaði. Launaskrið er hjá mörgum ASÍ-félaga en þekkist vart hjá SBU-félögum. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands er verðbólga 4,2% þegar þetta er skrifað. Það er því ljóst að kröfur BHM-félaga verða aðrar en þær sem nú hefur verið skrifað undir hjá ASÍ.

Eldri samningur SBU og annarra BHM-félaga rennur út 31. janúar með eingreiðslu upp á 38.000 krónur. Samningafundir munu liggja í láginni fram yfir áramót og verður tíminn notaður til að fara yfir hvaða áhrif nýgerðir samningar ASÍ og SA hafa á samningagerð okkar. Nú þegar hafa borist fregnir af því að nokkur félög innan ASÍ hyggist ekki samþykkja þennan samning, en það verður útkljáð á félagsfundum þeirra.