Stéttarheitið upplýsingafræðingur

Stéttarfélagið hefur í samvinnu við Upplýsingu unnið að því um nokkurra ára skeið að heiti stéttarinnar verði upplýsingafræðingar. Í könnun sem gerð var vorið 2012 kom í ljós að meirihluti félagsmanna vildi halda nafninu bókasafns- og upplýsingafræðingar.

Stjórn félagsins skoðaði málið um sumarið, en ákvað um haustið að halda áfram þessari vinnu. Hvers vegna hefur félagið ákveðið að halda þessari vinnu áfram?
Ný störf sem myndast hjá bókasafns- og upplýsingafræðingum eru núna að meirihluta í skjalastjórnun, við nýja miðla og aðra upplýsingavinnu. Hefðbundin bókasafnsvinna heldur gildi sínu en þar bætast ekki við störf. Laun eru hærri að jafnaði utan bókasafnanna en innan þeirra og við teljum störf utan þeirra draga upp laun innan bókasafnanna, ef eitthvað er.
Til að fleiri störf myndist á þessum nýja vettvangi teljum við ímynd bókasafnsfræði halda aftur af því að okkar stétt fái þessi störf, meðan starfsheitið upplýsingafræðingur geti auðveldað það. Við teljum að starfsheitið upplýsingafræðingur feli í sér vinnu á bókasafni og sé á engan hátt gjaldfelling á störfum þar. Heitið upplýsingafræðingur er í okkar huga yfirhugtak, sem tekur yfir vinnu á bókasafni, við skjalastjórnun, við rafræna miðla og aðra upplýsingavinnu.