Frétt Spegilsins um samning fyrir einn félaga


Mánudaginn 19. október flutti Spegillinn á Rás 1 frétt um fjölda stéttarfélaga og fjölda kjarasamninga hér á landi. Í byrjun fréttar kom fram að dæmi væri um samning sem gerður væri vegna eins félagsmanns, og í lok fréttar kom fram að það væri vegna félaga í SBU sem vinnur á Hrafnistu.

Hér verður ekki farið í saumana á þeim samningi en SBU tekur fram að félagið gerir alla heildarkjarasamninga í samfloti með öðrum félögum. Það eru samningar við ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélög og við SA á almennum markaði. Síðasta áratug og lengur hefur SBU alltaf verið í samfloti með Fræðagarði, Félagi ísl. félagsvísindamanna og Stéttarfélagi lögfræðinga við gerð kjarasamninga, og oftast með fleiri félögum. Þessi fjögur félög eru samtals með um 4000 félaga og eru langt frá því að vera smæstu aðilarnir í samningagerð hér á landi.

Í samningum á almennum markaði utan SA og við opinber hlutafélög geta samningar verið gerðir fyrir fáa félagsmenn en byggja þá alltaf á fyrirmynd úr stærri samningi. Okkur þætti eflaust þægilegra að þeir atvinnurekendur væru innan stærri heildarsamtaka, en þau hafa valið að standa utan þeirra og þá semjum við á þann hátt, annað er ekki í boði. Þannig var með samninginn við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem fréttin vísaði til. Sá samningur var reyndar gerður bæði við félagsmenn Fræðagarðs og okkar eina félaga sem eru launþegar fyrirtækja innan þeirra samtaka og átti þess vegna við um fleiri en einn starfsmann, en rétt að eyðileggja ekki góða sögu.

Það atriði fréttarinnar að starfsmaðurinn ynni á Hrafnistu var ekki frá okkur komið.

 

Frétt Spegilsins:

 

https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/23680/7gpcr7/fjoldi-kjarasamninga