22. nóvember fylgdi sérblað með Fréttablaðinu um stéttarfélög, og þar var viðtal við Sigrúnu Guðnadóttur, formann SBU, um kjaramálin. Þar segir hún:

„Það sem SBU vill leggja mesta áherslu á í komandi kjaraviðræðum er að laun okkar fólks hækki en með áherslu á að styrkja kaupmátt jafnframt því að ná fram launajafnrétti kynjanna. Margir innan okkar félags hafa dregist aftur úr hvað varðar laun þar sem flestir í okkar stétt vinna hjá hinu opinbera en laun á almennum markaði eru allt að 20% hærri. Við teljum nauðsynlegt að þeir sem leggja á sig langt nám í háskóla eigi að njóta samkeppnishæfra launa.

Það er mikil breyting í starfsþróun stéttarinnar, áður fyrr voru flestir með okkar menntun að vinna á bókasöfnum en í dag vinnur meirihlutinn við skjalastjórn, stjórnun á upplýsingum og miðlun þeirra. Við viljum gera okkar stétt meira gildandi í þessum störfum og viljum stefna að því að fólk með okkar menntun sé það fyrsta sem atvinnurekendum dettur í hug þegar kemur að þessum störfum.

Einnig viljum við sjá að réttur til námsleyfa sem nú er í samningum við ríkið verði einnig í samningum við sveitarfélög ásamt við almenna markaðinn. Það er mikill munur á að eiga rétt á að sækja um námsleyfi eða að hafa rétt á námsleyfi.

Stór hluti háskólamenntaðra greiðir af námslánum en hefur ekki fengið þau lán virt í aðgerðum vegna skuldsetningar né við útreikninga á heildarskuldum. Okkur finnst að þau eigi að vera frádráttarbær til skatts til jafns við önnur lán. Einnig að af þeim reiknist vaxtabætur, að þau verði tekin með í eignastöðu við þær aðgerðir hjá hinu opinbera vegna skuldsetningar hjá almenningi. Námslán eru ekki frábrugðin öðrum lánum, af þeim þarf að greiða.“

Til að lesa viðtalið eins og það birtist í blaðinu, sjá vefblaðið hér.