Á málþingi um framtíð stéttarinnar á föstudag kom fram að Háskóli Íslands hefur hætt kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði sem aðalgrein á B.A.-stigi. Þetta kemur fram í Stjórnartíðindum.

Það kom einnig fram að Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Upplýsing og háskólabókaverðir höfðu hvert um sig sent erindi til Háskólaráðs áður en þessi ákvörðun var tekin, en hafði ekki verið svarað. Félagið lætur nú skoða þá málsmeðferð en ljóst er að stefnt var leynt og ljóst að því að halda fag- og hagsmunafélögum utan við þessa ákvörðun.

Í erindi SBU komu fram rök fyrir áframhaldandi kennslu á þessu stigi, ekki síst þau að vel gengi fyrir fólk að fá vinnu við fagið að loknu þessu námi, eins og kom fram í fjölda atvinnuauglýsinga í sumar, eftir að erindið var sent. Þetta féll ekki saman við það sem kom fram í máli fulltrúa HÍ sem sögðu að erfiðlega gengi fyrir fólk með þessa gráðu að fá vinnu. Kennarar við deildina sögðu einnig að aðsókn að námi til B.A.-gráðu hefði minnkað en höfðu ekki tölur því til stuðnings.

Námið verður hér eftir á meistarastigi, til M.A.- eða MLIS-gráðu. Það verður nefnt nám í upplýsingafræði. Þess vegna er ljóst að ýmsar breytingar verða á stéttinni á næstu árum.