Tilgangur og skipulag
Í lögum SBU er stjórn heimilt að styrkja eitt verkefni á ári fyrir allt að 200.000 krónum. Tilgangur styrkveitingar er að styrkja verkefni sem stuðla að framgangi stéttarinnar. Dæmi um verkefni:
a) Ímyndarmál
b) Kjaramál
c) Menntamál, þ.m.t. símenntun, endurmenntun, námskeið, kennsluefni
Styrktarfjárhæð
Styrktarfjárhæð ræðst af 6.gr. laga SBU þar sem kveðið er á um heimild til styrkveitingar og getur numið allt að 200þúsund krónum.
Auglýsingar og umsóknir
Stjórn SBU auglýsir eftir umsóknum um styrk á heimasíðu sinni, www.sbu.is og með tölvupóstsendingu á félagsmenn. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang styrksins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, leiðbeiningar um skil á umsóknum, skilgreindur umsóknarfrestur og hvenær umsóknir verði afgreiddar.
Umsókn skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru, og nafn þess sem annast samskipti við sjóðinn
- Lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig verkefninu er ætlað að stuðla að framgangi stéttarinnar
- Verk- og tímaáætlun
- Fjárhagsáætlun, þar sem fram kemur hversu miklum styrk er óskað eftir og hvernig áætlað er að verja honum.
Mat á umsóknum, styrkveitingar og eftirlit
- Stjórn SBU metur styrkhæfi umsókna og velur úr verkefni til að styrkja.
- Heimilt er að styrkja verkefni sem lokið er, jafnt sem verkefni í vinnslu eða verkefni á byrjunarstigi.
- Mat á umsóknum skal einkum miðast við hvernig fyrirhugað verkefni nýtist stétt bókasafns- og upplýsingafræðinga.
- Stjórn SBU áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
- Ekki er heimilt að styrkja verkefni unnin af þeim sem hafa setið í stjórn SBU á styrkveitingarári.
- Stjórn SBU er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þess verkefnis sem styrkt er.
- Að loknu verkefni skal styrkþegi skila skriflegri greinargerð um verkefnið til stjórnar SBU og verður sú greinargerð gerð aðgengileg félagsmönnum.
- Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur stjórn SBU tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.
- Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur stjórn SBU krafist þess að félaginu verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta.
Samþykkt á fundi stjórnar SBU, 8. maí 2013