Stofnanasamningar hjá starfsmönnum við 31 stofnun

Með samkomulagi því sem náðist við BHM um framlengingu kjarasamninga þann 28. maí 2014 við ríkið fylgdi sérstök bókun. Markmiðið samkvæmt henni var að efla samkeppnisstöðu ríkisstofnana um menntað vinnuafl og auka tækifæri starfsmanna til að hafa áhrif á eigin launaþróun, með því að færa launasetningu nær vettvangi og laga hana að þörfum hverrar stofnunar fyrir sig. Á grundvelli bókunarinnar hefur verið ráðist í undirbúning á tilraunaverkefni með nokkrum völdum ríkisstofnunum í þeim tilgangi að að meta huglæga þætti, svo sem hæfni og frammistöðu einstaklinga eða hópa á kerfisbundnari hátt en hingað til. Þá skulu samdar leiðbeiningar um gerð stofnanasamninga, frammistöðumat og árangurstengingu launa. Skal reynslan af þessu tilraunaverkefni nýtt þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga. Til þessa verkefnis er heimilt að ráðstafa allt að 200 milljónum kr. og er það kostnaðarauki hinna völdu stofnana að meðtöldum launatengdum gjöldum. Hver stofnun sem samþykkir að taka þátt í verkefninu fær því sérstakt fjármagn til þessarar útfærslu (u.þ.b. 2% af launasummu þeirra félagsmanna BHM sem starfa hjá stofnuninni) og er það varanleg hækkun á launagrunni stofnunarinnar.

Stofnanirnar voru valdar í tveimur áföngum. Í fyrsta áfanga voru átta stofnanir valdar til þess að taka þátt í tilraunaverkefninu. Í seinna áfanga  var 23 stofnunum boðið að taka þátt í verkefninu og er þeim ætlað að fylgja beint í kjölfarið á þeim stofnunum sem þegar hafa verið valdar til þátttöku í tilraunaverkefninu.

Stefnt er að því að  um miðjan febrúar verði leiðbeiningarnar tilbúnar og stofnanirnar komnar í startholur að setja upp kerfi tengt tímabundnum launum um miðjan mars 2015.  Mikilvægt er að benda á það að mat á huglægum þáttum eru í eðli sínu ekki jöfnunaraðgerð en á  sama tíma ljóst að allir starfsmenn/félagsmenn hafa hins vegar jöfn tækifæri til þess að hafa áhrif á sín launakjör út frá huglægum þáttum þegar þetta hefur verið innleitt í stofnanirnar. Það var lagt af stað í þetta tilraunaverkefni með það í huga að það gæti tekið tíma og þá getur það verið misjafnt eftir stofnunum hvernig þetta tekst. Það er því mikilvægt að leggja mat á verkefnið innan einhvers tíma frá því að því er komið á innan stofnana og sjá hvað má betur fara og hvar vandinn liggur.

Stofnanirnar 31 sem ætlunin er að gera stofnanasamninga hjá eru:

Barnaverndarstofa
Fangelsismálastofnun
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
Hagstofan
Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Landlæknir
Landmælingar
Landsbókasafn
Matvælastofnun
Orkustofnun
Rannís
Ríkiskaup
Ríkislögreglustjóri
Ríkisskattstjóri
Samgöngustofa
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Sjúkrahúsið á Akureyri
Sjúkratryggingar
Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum
Tollstjóri
Tryggingastofnun ríkisins
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Umhverfisstofnun
Veðurstofa
Vinnueftirlitið
Vinnumálastofnun
Þjóðleikhús
Þjóðminjasafn
Þjóðskjalasafn