Skattabreytingar og styttri vinnutími á árinu 2021

Á árinu 2021 eru tvær breytingar sem mestu skipta um kjör félagsmanna SBU.

Annað er vinnutímastytting hjá flestum opinberum starfsmönnum og mörgum sem vinna á almennum markaði. Vinnuvikan er að hámarki 38 tímar og 55 mínútur og getur farið niður í 36 tíma, hafi um það verið samið. Almennt gilda strangari reglur um skrepp af vinnustað á þessum styttri tíma. Tilgangur reglnanna var að betra samræmi næðist milli vinnutíma og tíma með fjölskyldu en ekki að má út mörkin þar á milli. Það er mikilvægt núna, þegar heimavinna hefur aukist.

Hin breytingin er á greiðslu tekjuskatts, sem varðar alla félagsmenn SBU. Hún var gerð í tengslum við lífskjarasamningana, og var ætlað að bæta hag þeirra mest sem eru með lág laun, minna hjá þeim sem eru með meðallaun og ekki hjá hálaunafólki. Breytingarnar voru bæði á tekjuskattsprósentunni, með tilfærslu á mörkum í grunnþrep, miðþrep og háþrep, og að lokum með lækkun persónuafsláttar. Með því að færa þrenn mörk á sama tíma er ekki lengur hægt að sjá í sjónhendingu hvaða áhrif þessar breytingar hafa á laun hvers og eins, og þess vegna tökum við fegins hendi reiknivél sem hefur verið búin til. Þá getur hver og einn séð hvaða breytingar verða hjá sér.

Það þarf að athuga að þetta gildir um skattskyldar heildartekjur, það eru árstekjur þegar búið er að draga frá 4% framlag í lífeyrissjóð og aðra frádráttarbæra þætti, en bæta við öllum aukatekjum eins og orlofs- og desemberuppbótum. Þau sem eru með 6 milljónir í heildartekjur á ári nota 500.000 á skalanum í reiknivélinni, þau sem eru með 7,2 milljónir nota 600.000 og þau með 8,4 milljónir nota 700.000, og svo framvegis. Þá er hægt að sjá hvað skattur lækkaði á árinu 2020 og hvað hann mun lækka á árinu 2021. Það er þá sem mestu breytingarnar koma fram, og kemur ekki á óvart á kosningaári.

Þau sem eru með 500.000 í meðalmánaðartekjur lækka um 9.137 kr., þau með 600.000 lækka um 8.137 kr. og þau með 700.000 um 7.217 kr. Ef einhver sem les þetta er með milljón eða meira á mánuði að jafnaði, þá breytist skatturinn hjá þeim svo til ekkert, þau borga 8 krónum meira en áður. Allar breytingarnar eru svo sýndar myndrænt, þannig að fólk getur rýnt í þetta.

https://hlynur.shinyapps.io/tekjuskattskerfi/