Samantekt af námsstefnu ríkissáttasemjara í Borgarnesi 1.-3. október 2018

Þrír fulltrúar SBU fóru til námsstefnu ríkissáttasemjara í Borgarnesi, sem haldin var 1. til 3. október. Þátttakendur voru rúmlega sjötíu talsins og komu frá stéttarfélögum úr öllum geirum og frá SA. Þetta var mikilvægur hluti undirbúnings að kjarasamningagerð, en samningar á almenna markaðnum renna út nú í haust og á hjá opinberum starfsmönnum í lok mars. Það var mál manna á námsstefnunni að gott væri að hittast og fara yfir þessi mál í svona stórum hópi þar sem ólík sjónarmið komu fram.

Námsstefnan var haldin einu sinni í vor og á eftir að halda hana tvisvar í haust. Hún er hugsuð til að undirbúa samninganefndir undir vinnu í kjarasamningum. Efni hennar endurspeglar þá vinnu og var farið yfir flest þau atriði sem það snerta. Hér verður ekki sagt frá námsstefnunni í tímaröð, heldur dregið saman það efni sem var farið yfir.

Meginþræðir í máli fyrirlesara:

  • Traust er grundvallaratriði. Það er áunnið með því að standa við orð sín, með því að ræða saman og hittast. Til þess þarf að sýna ákveðna berskjöldun og þreifa sig áfram með viðsemjendum til niðurstöðu.
  • Niðurstaða hlýtur að byggjast á sameiginlegum markmiðum. Markmiðasetning í kjaraviðræðum verður að vera skýr.
  • Trúnaður verður að ríkja innan hverrar samninganefndar, við viðsemjendur, við félagsmenn og síðust í röðinni eru aðrir í samfélaginu. Greina þarf frá því hvað er að gerast og að hverju er stefnt eins í þessari röð, enda hafa kjaraviðræður áhrif í öllu samfélaginu.

Þrír fyrirlesarar fóru yfir lögfræðileg álitamál. Magnús Norðdahl frá ASÍ og Sara Lind Guðbergsdóttir frá kjara- og mannauðssýslu ríkisins fóru yfir helstu lagaheimildir sem gilda um stéttarfélög og vinnudeilur. Þau röktu hvernig þessi lög urðu til og hver tilgangur þeirra er. Þau gilda um þessa ákveðnu tegund samninga, hópsamninga og eru ólík lagaákvæðum um almenna viðskiptasamninga, enda er staða aðila mjög ólík. Lögin sem gilda um þetta eru fyrst og fremst sátt til að koma í veg fyrir átök og deilur, og skipa þeim átökum sem verða í ákveðinn lögbundinn farveg.

Auk þeirra fór Arnar Jónsson héraðsdómari yfir ábyrgð samningamanna, að vinna að því að samningar takist og standa bak við þá niðurstöðu sem fæst, sem kom síðar einnig fram hjá fleiri fyrirlesurum. Hann ræddi einnig ábyrgð samningamanna gagnvart baklandi sínu, viðsemjanda og gagnvart samfélaginu, en það er ólík ábyrgð. Hann ræddi hollustuklemmu, þar sem samningamenn hafa mismunandi skuldbindingar gagnvart baklandi sínu, samninganefnd og viðsemjendum.

Í máli Magnúsar kom fram að heimildir til aðgerða geta tekið til mjög lítils hluta félagsmanna og félagið getur látið þá kjósa um þær aðgerðir. Þær geta tekið til tiltekinna starfa, tiltekins tíma sólarhrings, tiltekinna hverfa eða svæða eða sem yfirvinnubann. Það þarf að vera afar skýrt í verkfallsboðun hverjir taki þátt í verkfalli og gegn hverjum verkfallið beinist. Tilkynningu um verkfall er ætlað að gera viðsemjanda viðvart þannig að hann geti komið í veg fyrir tjón með því að semja við viðkomandi félag. Í þessu samhengi telst verkfall þegar starfsmenn leggja störf niður að einhverju eða öllu leyti. Hann fór einnig yfir álitaefni milli ASÍ og SA um vinnustöðvanir.

Magnús fór yfir heimildir stéttarfélags og það umboð sem samninganefnd, eða öllu heldur formaður félagsins hefur til undirritunar samnings með fyrirvara um samþykki félagsmanna, og hvaða reglur gilda síðan um atkvæðagreiðslur um samninginn. Þau röktu heimildir ríkissáttasemjara til að boða fólk á samningafundi, til að leggja fram miðlunartillögu og til að vinna að því að samningar takist. Magnús tók sérstaklega fram þá skyldu samningamanna að styðja samning til samþykktar, eftir að hann hefur verið undirritaður.

Samheldni og samvinna samningamanna var eitt leiðarstef hjá tveimur markþjálfum sem töluðu á námsstefnunni. Anna Steinsen talaði um að vinna í hópi út frá þeim styrkleikum sem maður hefur, og hver er góða og hver er slæma hliðin á hverjum styrkleika fyrir sig. Þar er traust undirstaða allrar vinnu. Ragnhildur Vigfúsdóttir fjallaði líka um traust, út frá þeirri hugmynd að velja að vera berskjaldaður og að góðar liðsheildir vinni með ágreining á opinn hátt, sameinist um niðurstöðu og fylki sér að baki henni. Hún lýsti líka þeim eiginleikum sem grafa undan góðri liðsheild, baktali og róg.

Traust og hvernig það getur horfið snöggt var líka leiðarstef hjá almannatenglinum Andrési Jónssyni. Hann minnti líka á mikilvægi góðra tjáskipta út á við og til félagsmanna á samfélagsmiðlum.

Tveir hagfræðingar, önnur frá SA og hin frá ASÍ töluðu um efnahagslega stöðu landsins um þessar mundir. Mikill samhljómur var milli þeirra, enda kom fram að samkomulag hefði komist á að notast við sömu tölulegu upplýsingar. Ásdís Kristjánsdóttir nefndi að nú væri lengsta hagvaxtarskeið sögunnar sem hefði staðið frá 2011.

  • Það væri drifið áfram af framleiðslu og þjónustu, útflutningi á fiski og öðrum afurðum, og ferðamannaþjónustu. Hagstæð viðskiptakjör og uppgangur í ferðaþjónustu hafa veitt viðbótarsvigrúm. Ólíkt fyrri hagvaxtarskeiðum væri það ekki skuldsett, og í fyrsta skipti væri Ísland með jákvæða nettóstöðu við útlönd, ætti meiri eignir en skuldir erlendis.
  • Verðbólga hefði haldist stöðug. Þrátt fyrir það sagði hún ástandið vera brothætt og ekki mega mikið út af bregða til að þessi staða versnaði. Laun hafa hækkað langt umfram verðmætasköpun en það gengur ekki til lengdar. Viðskiptakjör hafa verið óvenju hagstæð en með hækkandi gengi krónu hafa þau versnað. Ferðamenn eru fleiri en áður, en dregið hefur úr fjölgun þeirra og þeir eyða minna en þeir gerðu hér. Verðbólga hefur haldist lág, meðal annars vegna þess að tollar og vörugjöld voru afnumin af mörgum vörum, en það er ekki hægt að endurtaka.
  • Til að viðhalda sama hagvexti þarf að auka útflutning um 50 milljarða á ári. Sú aukning þarf að koma frá nýsköpun.

Henný Hinz ræddi hvort hægt væri að nota norrænt módel til að eiga hægan en stöðugan vöxt í kjörum, í stað þeirra miklu sveiflna sem hafa verið hér. Hún nefndi líka að kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi, stjórn efnahags- og velferðarmála þarf að haldast í sama takti. Félagsleg velferð og félagslegur stöðugleiki þarf að haldast í hendur við efnahagslegan stöðugleika. Þar kemur aðild stjórnvalda inn í kjarasamninga.

Daginn eftir kom fram í máli þátttakenda að hér vantaði stefnumótun, í stað þess að hagurinn hafi batnað bara vegna þess að tveir þættir hafi verið óvenju hagstæðir. Ekki sé hægt að treysta á að búhnykkir komi endalaust.

Þóra Christiansen, kennari í viðskiptafræði við HÍ var með lokaerindi námsstefnunnar. Hún fór yfir mörg atriði í samningatækni, lagði áherslu á að setja tilboð í samhengi við það sem skiptir viðsemjendur máli, segja sögur og afvopna mótrökin. Einnig þarf að taka tillit til ólíks bakgrunns og tilfinninga viðsemjenda. Byggja þarf upp traust með þreifingum, að nýta tengslanet, sameinast um markmið eða framtíðarsýn, og fyrst og fremst með því að hittast. Hún lauk öðrum degi með hagnýtu verkefni þar sem þátttakendur þurftu að semja við hvern annan, með bæði andstæða og samstæða hagsmuni. Lokaverkefni síðasta dagsins hjá henni fjallaði um að leggja fram kröfugerð í samningi, og þátttakendur voru látnir fá ólík hlutverk innan samningahópsins. Þessar æfingar stóðu upp úr í huga fólks og kenndu meira en margt annað um mikilvægi uppbyggilegs ágreinings og samstöðu í samningahópnum.