Niðurfærsla námslána

SBU tekur fagnandi tillögum ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu húsnæðislána, sem kynntar voru 30. nóvember. Um leið er minnt á kröfur félagsins um að eins verði farið með námslán, sem er mikið hagsmunamál fyrir háskólafólk.

Með tillögum ríkisstjórnarinnar er viðurkennt að lántakendur húsnæðislána hafi verið látnir taka meiri byrðir en þeim bar á árunum 2007-2010. Þær verðbætur sem voru umfram 4,8% á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010 verða bættar, sem svarar um 13% fyrir allt tímabilið. Allir þurfa þak yfir höfuðið og þess vegna eru lán vegna húsnæðis til eigin nota felld undir þessar aðgerðir.

Háskólafólk hefur tekið lán til að standa straum af námskostnaði, sem byggir undir starf þeirra allt lífið. Námið styrkir þau og styrkir um leið hag þjóðarinnar. Þessi lán hafa lága vexti en eru verðbætt, og voru reyndar fyrstu vísitölubundnu lánin. Flest þeirra hafa verið veðbundin, annað hvort með veði ábyrgðarmanns eða fasteignaveði skuldara. Greitt er af þeim tvisvar á ári, annað hvort 4,75% eða 3,75% af brúttólaunum, miðað við tekjur árið á undan. Þessar greiðslur samsvara tveggja til þriggja vikna nettólaunum á hverju ári og greiða margir af þeim í áratugi.

Þau hafa þannig verið sams konar byrði og húsnæðislán fyrir flesta og ruku upp á árunum 2007-2010 á sama hátt og húsnæðislánin. Til eru þau sem ekki þurfa á þessum lánum að halda, en margir eru í þeirri stöðu á yngri árum að hafa lítið fé en góða hæfileika til að læra. Þau taka þess vegna þessi lán til að byggja undir líf sitt. Með náminu vinna þau að virðisauka fyrir þjóðina alla.

SBU krefst þess að í aðgerðum stjórnvalda vegna lána verði farið með námslán eins og húsnæðislán.