Starfsþróunarsetur háskólamanna

Í samningum 2011 við ríkið náðist að semja um umtalsverð réttindi til námsleyfa. Allir félagsmenn sem hafa unnið fjögur ár eða lengur hjá sömu ríkisstofnun eiga rétt á tveggja vikna leyfi fyrir hvert unnið ár, mest þó 6 mánuði. Þetta er réttur launamanns, og verður ekki takmarkaður af hendi ríkisstofnunar, nema á þann veg að þær mega takmarka fjölda sem er burtu í námsleyfi hverju sinni við 10% starfsmanna.

Leyfið er greitt með meðallaunum áður en fólk fer í leyfið. Stofnunin þarf ekki að veita neina styrki umfram þetta en hefur heimild til þess.

Það nám sem fólk getur stundað í leyfinu þarf að vera samkvæmt starfsþróunaráætlun eða endurmenntunaráætlun stofnunar, sé þannig áætlun til. Að öðrum kosti telst nóg að námið styrki fólk í núverandi starfi eða sem fagfólk. Hjá félagsmönnum SBU fer þetta tvennt nær alltaf saman.

Til að styrkja félagsmenn til náms á meðan leyfinu stendur, fyrir námskeiðsgjöldum, ráðstefnugjöldum, ferðakostnaði, gistingu og öðrum kostnaði, hefur ríkið lagt fram fé í Starfsþróunarsetur háskólamanna. Félagsmenn sækja um styrki til setursins. Ef þú ert í vafa um hvort þú eigir rétt á endurgreiðslu frá Starfsþróunarsetrinu, skaltu senda umsókn áður en þú skráir þig á námskeið. Endurgreiðsluna færðu svo með framvísun reikninga eftir að þú hefur greitt.