Kjarasamningar renna út

Kjarasamningar renna út – eingreiðsla til ríkisstarfsmanna – eldri samningar gilda þar til nýir hafa verið undirritaðir – gangur viðræðna

1. febrúar renna út kjarasamningar sem skrifað var undir í júní 2011. Kjör breytast ekki, þó að ekki sé búið að skrifa undir nýja samninga, heldur gilda þeir eldri áfram. SBU semur fyrst og fremst við þrjá mótaðila; ríkið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.

Ríkisstarfsmenn fá 38.000 króna eingreiðslu með febrúarlaunum. Starfsmenn sveitarfélaga og þar með Reykjavíkurborgar höfðu fengið nokkru lægri upphæð í svipaða greiðslu árið 2012. Upphæðir desember- og orlofsuppbóta eru hærri þar en hjá ríkinu, og launataxtar þeirra hækkuðu nokkru meira árið 2011. Laun margra SBU-félaga á almennum vinnumarkaði taka mið af samningum við ríkið, og er félögum þar sérstaklega bent á að sækja þessa eingreiðslu til vinnuveitanda síns.

Viðræður hafa tekið nokkuð mark af þeirri útreið sem samningar ASÍ við SA fengu um miðjan mánuðinn, þegar um helmingur þeirra sem kaus felldi samningana. VR-félagar samþykktu samninginn og þar er komið að mikilvægum mun sem er milli opinberra starfsmanna innan BHM og margra innan ASÍ. Háskólafólk tekur nær alfarið laun einungis eftir taxta meðan yfirgnæfandi meirihluti félaga innan VR er með laun vel yfir taxta.

Þessi grundvallarmunur þýðir að kröfur BHM eru að fá meiri kjarabætur en samið var um í samingi ASÍ og SA, enda hafa BHM-liðar dregist aftur úr kjarabótum á almennum vinnumarkaði síðan 2008. Fyrir 2008, þegar átti að heita að góðæri ríkti í landinu, var staða BHM-fólks ekki alltof góð, þar sem taxtahækkanir 2005 og 2006 náðu ekki verðbólgu, svo dæmi sé tekið. Þau ár minnkaði því kaupmáttur BHM-félaga.