Grein um mikilvægi lesskilnings

Þorgrímur Þráinsson skrifar um ástæður minnkandi lesskilnings barna í Morgunblaðið 6. desember (s. 32). Hann segir meðal annars:
„Ef það væri raunverulegur vilji til að styðja við bakið á barnabókmenntum myndi ríkið kaupa nýútgefin verk barna- og unglingabókahöfunda, hugsanlega þúsund eintök, og dreifa þeim á skólabókasöfnin eins og tíðkast víða erlendis. Raunveruleikinn hér á landi er hins vegar sá að hníf er stungið í hjarta skólanna – skólabókasöfnin – með því að draga úr starfshlutfalli bókasafnsfræðinga. Eða þeim hreinlega sagt upp. Mikilvægasta athvarfi nemenda er lokað, nema hluta úr degi. Og bókasöfnin kaupa hugsanlega örfáar nýútkomnar bækur.“
Í greininni fjallar hann að auki um lág framlög til höfunda vegna útlána á bókasöfnum og lág framlög úr launasjóði rithöfunda til höfunda barna- og unglingabóka. Hann reifar einnig hugmyndir um að rithöfundar gætu komið að bókmenntakennslu í grunnskólum með því að kenna ritlist, til að efla skilning skólabarna á rituðu orði. Hann nefnir einnig þá hugmynd að skóladagur byrji alltaf á yndislestri og ljúki á því að farið verði yfir þau orð sem krökkunum fannst erfitt að skilja í textanum sem þau lásu um morguninn. Hann hvetur að lokum til að opinberir aðilar blási til átaks um meiri lestur á heimilum.
Þorgrímur er metsöluhöfundur og hefur skrifað barna- og unglingabækur, auk þess sem hann hefur skrifað bækur almenns eðlis, í blöð og í tímarit. Grein hans er mikilvægt innlegg um stöðu skólabókasafnanna og hvatning til upplýsingafræðinga að láta í sér heyra í fjölmiðlum um þessi mál.