Jafnréttismál á Krossgötum – þrjár greinar

Persónur á mynd. Frá vinstri: Sigrún Guðnadóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir, Ragnheiður Bóasdóttir, Bragi Skúlason og Alda Hrönn Jóhannsdóttir

Jafnréttismál á krossgötum

Er launamunur kynjanna náttúrulögmál?

Grein 1

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Stéttarfélags lögfræðinga
Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs
Hugrún R. Hjaltadóttir, formaður Félags íslenskra félagsvísindamanna
Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins
Sigrún Guðnadóttir, formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga

Fjörutíu ár eru síðan lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976 voru samþykkt frá Alþingi. Þar segir: „Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla”. Þessi texti er í samræmi við 65 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna“.

Því er spurt hvað er jafnrétti kynja? Getum við 40 árum síðar sagt að konur og karlar á Íslandi hafi jafna stöðu í samfélaginu? Merkti jöfn staða eða jafnrétti eitthvað annað fyrir 40 árum en núna?

Frá því umrædd lög voru sett fram hafa komið aðrir lagatextar um sama efni og nú gilda lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Þar segir „Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni“. Í 18. gr. laganna segir: „Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum“.

Við sem skrifum þessa grein komum úr jarðvegi stéttarfélaga og okkur þykir við hæfi að fjalla um þau mál er varða jafna stöðu kvenna og karla í samfélagi okkar á þessum tímamótum. Er það þannig í raun að konum og körlum bjóðist jöfn tækifæri í samfélagi okkar? Eru sambærileg laun fyrir sömu vinnu? Eru ævitekjur sambærilegar? Einhverjir vilja svara því til að kynin séu ólík og vart raunhæft að ná fram neinum samanburði að viti. Er það virkilega svo? Hvað var átt við þegar stjórnarskráin var skrifuð og jafn réttur kynjanna samþykktur?

Þegar jafnréttismál ber á góma er oft stutt í umræðu um barnauppeldi og samvistir við þau. Við viljum gjarnan að foreldrar taki jafna ábyrgð á uppeldi barna og heimilisstörfum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var meðalfjöldi unninna klukkustunda í maí 2016 44,4 hjá körlum en 37,3 hjá konum. Þessar tölur endurspegla annan veruleika en þann sem við sjáum fyrir okkur. Það er styttra en margir halda síðan menntun stóð bæði konum og körlum til boða á Íslandi. Nú þykir það sjálfsagt.

Það er staðreynd að ómenntaðar konur hafa að jafnaði síðri tekjumöguleika en ómenntaðir karlar og er það væntanlega ein skýring þess að fleiri konur en karlar sækja sér háskólamenntun. Kjarakannanir BHM og Aðgerðahóps um launajafnrétti varðandi launamun karla og kvenna frá 2015 staðfesta að háskólamenntaðar konur hafa að jafnaði síðri tekjumöguleika en háskólamenntaðir karlar. Þarna er talað um kynbundinn launamun sem vísbendingar eru um að fari aftur vaxandi á Íslandi. Launamunurinn jafngildir því að konur vinni frítt einn mánuð á ári.

Er launamunur kynjanna náttúrulögmál eða getum við upprætt hann? Við getum tekist á um aðferðafræði kannana og orsakir vandans en staðreyndin er hinsvegar sú að einhver skekkja er innbyggð í samfélagið og hana þarf að laga. Við köllum því eftir markvissum aðgerðum sem skila árangri en ekki einungis fleiri rannsóknum á stöðu mála. Innleiða þarf Jafnlaunastaðalinn á sem flesta vinnustaði, endurreisa fæðingarorlofskerfið til að tryggja þátttöku beggja kynja í ummönnun barna, gefa ungmennum tækifæri á að velja sér stafsvettvang óháð staðalmyndum kynjanna, uppræta launamun kynjanna og þannig munu allir njóta þeirra réttinda sem hin 40 ára löggjöf lofar okkur.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12.september 2016


 

Jafnréttismál á krossgötum

Jafnrétti án mismununar?

Grein 2

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Stéttarfélags lögfræðinga
Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs
Hugrún R. Hjaltadóttir, formaður Félags íslenskra félagsvísindamanna
Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins
Sigrún Guðnadóttir, formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga

Jafnrétti er hugtak sem okkur hefur gengið misvel að átta okkur á hvað þýðir í raun. Þetta er hugtak sem allir eiga að þekkja og helst að vera hjartanlega sammála um merkingu þess. Raunin er þó líklega sú að fæst okkar hafa krufið hugtakið til mergjar og jafnframt er sjónarhorn okkar á því misvítt og oft litað bæði hagsmunum og öðrum viðhorfum.

En hvað þýðir þetta hugtak þá? Hver er skilningur okkar á því og hver er merking þess í raun?

Í sinni ákveðnustu mynd þýðir jafnrétti að engum skuli mismunað á nokkurn máta. Allir skuli vera jafnir. Þessi mynd birtist í barnalögum nr. 76/2003 þar sem segir: „Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi“. Yfirlýst markmið laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er líka að „Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni“.

Við þurfum hins vegar ekki viðamikla skoðun á umhverfi okkar til að sjá að börnum er mismunað á marga vegu og að konur eiga ekki sömu möguleika til að „njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína“ og karlar. Hið sama á við þegar við horfum með gleraugum þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, kynhneigðar, heilsufars, aldurs og yfirleitt öllu því sem á einhvern hátt skiptir okkur í hópa.

Lagasetning er í sjálfu sér góð byrjun. Ein og sér er hún þó aðeins merki í reit á pólitískum rétttrúnaðarlista. Henni þarf að fylgja eftir með aðgerðum og róttækum hugarfarsbreytingum sem við sjáum of lítil merki um enn sem komið er. Þær tilraunir sem gerðar hafa verið til breytinga hafa í besta falli mætt sinnuleysi eða góðlátlegum brosum. Viðbrögðin við afdráttarlítilli lagasetningu hafa verið þau að koma okkur upp fjölbreyttu safni skilyrðinga og afslátta af hugtakinu sem yfirleitt er orðið algerlega merkingarlaust þegar kemur að því að mæla árangur okkar í málaflokknum.

Launajafnrétti er þarna lýsandi dæmi. Við höfnum launamun nema hann sé byggður á málefnalegum rökum. Svo tökum við þennan „ómálefnalega“ mun og „leiðréttum“ hann. Munurinn á kjörum kynjanna á vinnumarkaði er afsprengi mismunar á félags- og hagfræðilegri stöðu þeirra. Vinnumarkaðurinn byggir enn að mestu á hefðbundnum karllægum gildum og hugmyndum karla um æskilega hegðun á vinnustað og vinnumarkaði. Leiðréttur launamunur er því ekki mælikvarði á neitt annað en það hvernig konum gengur að hegða sér eins og karlar.

Kjarajafnrétti kynjanna næst ekki með lagasetningu eða reglugerðum einum saman, fremur en annað jafnrétti, þótt hvort tveggja sé góðra gjalda vert. Til að ná kjarajafnrétti verðum við að breyta verðmætamati okkar á þann veg að við viðurkennum kvenlæg gildi til jafns við hin karllægu. Það þýðir ekki gjaldfellingu á karllægum gildum þótt þau missi algildingu sína. Það felur því ekki í sér neina niðurlægingu fyrir karla, en það þýðir að við hverfum frá núverandi niðurlægingu fyrir konur. Þar til við höfum nálgast það markmið verður jafnrétti kynjanna aldrei annað en réttur kvenna til að hegða sér eins og karlar.

Jafnrétti almennt séð næst ekki á meðan við höldum áfram að tigna hinn testosteronfyllta karl sem rakið getur ættir sínar til Noregskonunga og er reiðubúinn til þess að láta næsta endalausa viðveru á vinnustað ganga fyrir öllu öðru í tilverunni. Við verðum að byrja á því að viðurkenna kynjaða kynþáttarembu okkar og glíma við hana af festu.

Greining birtist í Fréttablaðinu 17.september


 

Jafnréttismál á krossgötum Grein 3

Hvað þarf eiginlega að breytast?

Grein 3

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Stéttarfélags lögfræðinga
Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs
Hugrún R. Hjaltadóttir, formaður Félags íslenskra félagsvísindamanna
Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins
Sigrún Guðnadóttir, formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga

Bandalög launafólks hafa barist fyrir kynjajafnrétti um langt árabil og okkur sem störfum fyrir þau bandalög svíður árangursleysið.

En jöfn kjör eru einungis eitt pennastrik í flóknu mynstri jafnréttismála og þegar litið er til annarra jafnréttisþátta blasir við okkur enn daprari sýn. Afrakstur jafnréttisaðgerða er víðast lítill. Eini áþreifanlegi árangurinn undanfarna hálfa öld virðist vera takmörkuð viðurkenning á tilverurétti þeirra sem stíga út fyrir ramma rétttrúnaðar fyrri tíma í kynhneigð og enn skilyrtari jánkun við því að konan ráði yfir líkama sínum. Hið síðara er meira að segja í hugum margra háð illa skilgreindum velsæmisramma í klæðaburði eða öðrum skilyrðum.

Við höfum sett lög og skrifað reglugerðir. Barið okkur á brjóst og sagt misrétti heilagt stríð á hendur. Sett jafnréttismál á stefnuskrár stjórnmálaflokka, kjarafélaga, góðgerðasamtaka og saumaklúbba. Árangur baráttunnar hefur verið  takmarkaður og oftast skilyrtur.

Eina haldbæra skýringin á framfaraskortinum er raunar sú að aðferðafræði okkar sé röng. Sumir berjast fyrir launajafnrétti. Aðrir fyrir jafnrétti til náms, aðgengis, hjúskapar eða þátttöku í einum eða öðrum þætti  tilverunnar. Konan getur nálgast launajafnrétti ef hún hegðar sér eins og karl á vinnumarkaði. Jafnrétti til náms er lagabókstafur sem hefur ekki náð að brjóta niður múra efnahagsstöðu, uppruna eða líkamsástands. Öryrkjar horfðu í von til reglugerða um aðgengi, en meira að segja opinberar stofnanir sjá fæstar ástæðu til að starfa eftir þeim og jafnrétti samkynhneigðra til fjölskyldulífs er enn háð illskiljanlegum skilyrðum. Aldraðir njóta ekki enn jafnréttis til neins.

Þarna er gagngerra breytinga þörf. Vonandi getum við öll verið sammála um það. En hvað ef það sem þarfnast breytinga varðar okkar eigin framgöngu?

Getur verið að allir þeir sem til þessa hafa beitt kröftum sínum í glímu við einhvern anga jafnréttismála þurfi að snúa bökum saman um að gera grundvallarbreytingar á nálguninni að málefninu? Jafnrétti er mannréttindamál. Í sinni einföldustu (og flóknustu) mynd er það réttur hvers einstaklings til þátttöku í samfélagi sínu að mörkum eigin getu og vilja og á sínum eigin forsendum.

Eins og mál standa erum við í órafjarlægð frá ofangreindri skilgreiningu. Öryrkjar og aldraðir hafa takmarkaðan þátttökurétt í samfélaginu og hafa það sameiginlegt með atvinnulausum að eiga fremur að nefnast bótaþolar en bótaþegar. Aðrir hópar standa einnig frammi fyrir illa yfirstíganlegum forsendum og takmörkunum. Konum hættir til að segja þessar forsendur karllægar, en þær eru í raun hvorki karllægar né kvenlægar. Þær eru ekki heldur gagnkynhneigðarlægar, ungdómslægar eða settar til höfuðs öryrkjum. Þær eru einhvers konar seigfljótandi hugmyndafræðilegur massi sem virðist hafa safnast saman í aldanna rás svona af sjálfum sér. Hljóma  líkast tilviljanakenndu bergmáli af röddum úr djúpi aldanna. Í dag eru þessar forsendur líklega engum þóknanlegar, þótt þær geti eftir atvikum reynst ágætis stjórntæki í höndum þeirra sem hafa geð til að nýta þær. Tilgangur þeirra í dag virðist fyrst og fremst vera að hefta hugmyndafræðilega hreyfingu og í nútímanum hefur ekkert samfélag efni á að hægja á þeirri þróun. Síst af öllu lítið samfélag sem í mörgu virðist alltaf hokra á mörkum hins byggilega.

Ef við ætlum að nálgast jafnrétti þurfum við að snúa þessu dæmi við. Við þurfum að snúa forsendunum á hvolf. Samfélagið og stofnanir þess verða að takast á herðar þá skyldu að skýra misrétti, fremur en að einstaklingar eða hópar þurfi að réttlæta jafnrétti.

Stofnanir sem skammta hópum það hlutskipti að geta ekki tekið nema takmarkaðan þátt í samfélaginu eiga ekki tilverurétt. Við höfum ekki efni á að setja ljós neins undir mæliker. Hvorki í nafni veraldlegs eða trúarlegs valds. Alls ekki í nafni stjórnunar eða embættisþæginda og síst af öllu í nafni hámörkunar arðs fámennra hópa.  Launagreiðandi sem byggir launagreiðslur á einhverju öðru en framlagi launamannsins á ekki erindi í rekstur. Stjórnvald sem ýtir stökum hópum út á jaðar samfélagsins og heftir þannig framlag þeirra er ekki stjórntækt.

Vissulega eru sú barátta sem þegar hefur átt sér stað mikilvæg en betur má ef duga skal.  Grundvöllur jafnréttis liggur á sömu stoðum og það samfélag sem við byggjum og felst því ekki síður í viðurkenningu á lífsgildum allra hópa en rétti þeirra til einhverra skilgreindra athafna, hegðunar eða umbunar. Sú umræða er framundan.

Grein birtist í Fréttablaðinu 22.september