Af aðalfundi SBU 16. apríl 2021

Stjórn SBU 2021 til 2022
Stjórn SBU 2021 til 2022. Frá vinstri efri röð Kristjana Mjöll Jónsd. Hjörvar, Óskar Þór Þráinsson, Ívar Ólafsson. Frá vinstri neðri röð Hallfríður Kristjánsdóttir, Sveinn Ólafsson, Ragna Björk Kristjánsdóttir. Auk þeirra er Sigrún Guðnadóttir varamaður.

Aðalfundur SBU var haldinn föstudaginn 16. apríl kl.12, sem fjarfundur.

Fyrir utan venjubundin aðalfundarstörf var samþykkt lagabreyting, þar sem stjórn getur nú ákveðið að aðalfundur verði haldinn sem fjarfundur að hluta eða heild, og þegar það er gert, þá verði atkvæðagreiðslur haldnar rafrænt.

Spurning kom fram á fundinum um hvort það þýddi rafræna atkvæðagreiðslu á þeim aðalfundum sem eru bæði á staðnum og fjarfundur. Það er líklega það form sem verður haldið í næstu framtíð. Svarið er að fulltrúar á staðnum muni greiða atkvæði rafrænt til að fjarfundafulltrúar standi eins jafnfætis þeim og hægt er. Að sögn Gauta, starfsmanns þjónustuskrifstofu, getur fólk á staðnum annað hvort notað síma eða það verður tölva á staðnum þar sem fulltrúar þar greiða atkvæði.

Reikningar voru samþykktir. Gjaldkeri fór yfir að millifært var vegna eldri skuldar, sem varð til við kjaradeiluaðgerðir 2016, milli Vísindasjóðs og Kjaradeilusjóðs annars vegar og sjóðs félagsins hins vegar. Fjárhagur félagsins breyttist ekki við það. Hún sagði líka frá því að nú er fjármagnstekjuskattur af sölu verðbréfa í eigu Kjaradeilusjóðs færður til bókar, því að ef þau verða seld, þarf að greiða þann skatt. Þetta breytir bara bókfærðum reikningi en ekki verðbréfaeign, þar til þau verða í rauninni seld.

Nám í upplýsingafræði

Í lok fundar skapaðist umræða um stöðu náms í upplýsingafræði, þar sem tveir félagar vöktu máls á  því. Stjórn var sammála um að félagið ætti að taka þátt í þeim umræðum, og boða til fundar með fólki sem hefur áhuga á þessum málum. Í framhaldi af því verður leitað eftir samstarfi við Upplýsingu og sent bréf í nafni félaganna með tillögum til upplýsingafræðideildar Félagsvísindasviðs HÍ.

Stjórn SBU 2021-2022

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar var kjörin formaður til tveggja næstu ára, en hún hefur gegnt því embætti í eitt ár. Kjörið fór fram vegna þess að skipt var um formann á miðju kjörtímabili.

Sigríður Sighvatsdóttir gjaldkeri hætti í stjórn eftir þetta kjörtímabil. Ragna Björk Kristjánsdóttir var kjörin í stjórn til næstu tveggja ára, og sama gildir um Svein Ólafsson, sem hefur verið áður í stjórn. Ívar Ólafsson og Óskar Þór Þráinsson hafa lokið einu ári af sínu tveggja ára kjörtímabili og halda áfram þar. Hallfríður Kristjánsdóttir var kosin varamaður til tveggja ára, en auk hennar er Sigrún Guðnadóttir varamaður og hefur lokið hálfu kjörtímabili sínu.

Fyrir utan embætti formanns, skiptir stjórn með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund. Stjórn félagsins hefur umsjón með störfum félagsins og er um leið stjórn Vísindasjóðs og Kjaradeilusjóðs. Þar sem félagið er endurskoðað af Ernst & Young, eru ekki kosnir sérstakir skoðunarmenn reikninga.

Stjórn SBU 2021 til 2022