Kjaramálin eru efst á baugi hjá SBU sem endranær, þó einnig sé unnið í öðrum málum. Samningar renna út í janúar 2014 og undirbúningur kjaraviðræðna hófst í sumar, þegar félög innan BHM settu upp helstu kröfugerðarmál.

Í lok september settu fimm félög sem reka saman þjónustuskrifstofu upp hóp sem raðaði saman hugmyndum að málefnum fyrir kröfugerð. SBU er í þessum hópi með FÍF, FHSS, Fræðagarði og SL.

Gerð var könnun meðal félagsmanna upp úr þessum hugmyndapakka, hvað þeir teldu mikilvægast. Ekki kom á óvart að launamál voru efst á baugi sem fyrr hjá SBU. Þar var launajafnrétti efst á blaði, síðan hærri laun, efldur kaupmáttur og samræmd orlofs- og desemberuppbót. Einnig nefndi fólk styttri vinnuviku og samræmingu lífeyrisréttinda.

Atriði sem hlutu minni byr meðal félagsfólks voru lækkuð greiðslubyrði vegna námslána, aukið orlof barnafólks og réttur vegna veikinda nákominna.

SBU hefur tilkynnt kjaraviðræðunefndir við alla viðsemjendur sína og óskað eftir fundum með þeim, sem fara af stað nú í skammdeginu.

Félög innan BHM munu skoða hverjir hyggjast fara í samflot. Það munu ekki verða öll BHM-félögin, því þegar hafa félög lýst því yfir að þau fari fram sér. Ljóst er að félögin fimm sem áður voru upp talin hyggjast fara fram saman, en það eina sem er víst í þessu samhengi er að samningsrétturinn liggur á endanum hjá hverju félagi fyrir sig. Þau geta þannig á hvaða stigi málsins leitað samflots með þeim sem þau vilja og telja henta hverju sinni.

Meðallaun í SBU eru á svipuðu róli og í Fræðagarði og FÍF, en töluvert lægri en í SL og FHSS. Að mörgu öðru leyti er staða félagsmanna álík og eiga þessi félög til dæmis meira sameiginlegt hvert með öðru en með félögum sem hafa fjölda vaktavinnustarfa. Það hentar þess vegna SBU að mörgu leyti að fara fram með þessum félögum, en SBU hefur einnig leitað samstarfs við önnur félög þegar það hefur hentað. Þetta er viðurkenndur samningsmáti.

Eitt atriði sem SBU vill koma á er að nýr samningur taki gildi frá þeim degi þegar sá eldri rennur út. Hingað til hefur þetta ekki verið svo, og setur þess vegna litla pressu á viðsemjendur að gera nýjan samning. Eins og nú er gildir eldri samningur þar til nýr hefur verið gerður, eins og almennt gerist í samningarétti.